149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Nú vil ég ekki endilega ætla mönnum það að eitthvað hafi búið að baki því hvernig pakkar númer eitt og tvö voru innleiddir. Eins og fram hefur komið í umræðunni voru þeir innleiddir á þann hátt að Íslendingar voru, eins og stundum áður í EES-gerðum, kaþólskari en páfinn. Eftirköstin voru vissulega sársaukafull að þetta framsækna fyrirtæki á Suðurnesjum skyldi hverfa í fang einkaaðila, þó að vísu sé búið að ná því að hluta til baka, en við vitum ekki hvort það verður svo. Ég held því einfaldlega fram að menn hafi ekki gefið sér tíma. Þetta hafi ekki verið góð vinnubrögð og ég hef t.d. orð hv. þingmanna sem hér voru á þeim tíma sem sögðu: Þetta mál rann í gegnum þingið nánast án umræðu.

Því er það kannski enn mikilvægara að við endurtökum ekki þann leik nú. Að þetta mál sem við erum með til meðferðar, sem er skilgetið afkvæmi hinna tveggja, fari ekki sömu leið í gegnum þingið með sömu slæmu vinnubrögðunum og með sömu slæmu eftirköstunum eins og fram hefur komið í umræðunni, bæði í kvöld og nótt og áður. Þótt við hefðum viljað komast út úr pakka númer tvö, af því að við sáum að þessi uppskipting skaðaði landsmenn í hærra orkuverði og ýtti fyrirtækjunum út í einkavæðingu, hefðum við ekki getað bakkað með ákvörðun okkar nema segja EES-samningnum upp í heilu. Það er nákvæmlega það sama sem við stöndum frammi fyrir núna. Ef þessi innleiðing virkar ekki, sem ég óttast mjög að muni ekki gera, getum við ekki losnað við þetta nema segja EES-samningnum upp í heilu og ég held að það sé eitthvað sem enginn okkar vill.