149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað viljum við halda EES-samningnum til streitu og það er mikill misskilningur sá áróður sem hér hefur heyrst að Miðflokkurinn vilji þennan samning feigan. Það er alrangt. Hins vegar viljum við að sjálfsögðu standa á okkar rétti í þeim samningi og minna rækilega á að þetta er tvíhliða samningur milli tveggja aðila þar sem báðir aðilar hafa sín réttindi og sínar skyldur, svo því sé haldið til haga.

Ég nefni þessa uppskiptingu fyrirtækjanna sérstaklega vegna þess að það er klassískt dæmi um það að þar héldum við ekki á okkar réttindum með nægilega öflugum hætti. Við þurftum ekki að skipta þeim fyrirtækjum upp en við gerðum það samt. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvort þarna séu einhverjar tengingar á milli þess að stjórnvöld vilja ekki fara þá leið að hafna orkupakkanum og fara með hann til sameiginlegu nefndarinnar til að fá niðurstöðu.

Það er eins og það sé einhver óttablandin virðing gagnvart Evrópusambandinu, menn þori ekki að standa á rétti sínum og jafnvel fari þá leið að gera meira en Evrópusambandið fer í raun og veru fram á sem hefur síðan afleiðingar. Það hafði afleiðingar þegar fyrirtækjunum var skipt upp. Fyrirtækið var einkavætt, þ.e. Hitaveita Suðurnesja. Það gerði að verkum að fyrirtækjunum var skipt upp og það hafði náttúrlega kostnað í för með sér fyrir þau fyrirtæki og það fór út í verðlagið. Það er þessi tenging, að þarna sé eins og einhver óttablandin virðing fyrir því að standa á rétti sínum í þessum samningi.