149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna kom hv. þingmaður inn á mjög mikilvægt atriði. Það verður ekki snúið til baka þegar búið er að samþykkja orkupakka þrjú. Það er nákvæmlega það sama og gerðist með orkupakka eitt og orkupakka tvö þegar fyrirtækjum eins og Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp. Þá varð ekkert aftur snúið. Þessi fyrirtæki verða ekkert sameinuð aftur. Þetta er uppskipting sem gekk í gegn og gerði að verkum að hægt var að einkavæða eitt fyrirtækið, kostnaður sem fylgdi því að skipta fyrirtækjunum upp fór út í verðlagið þannig að þetta hafði afleiðingar og það verður ekki aftur snúið.

Nákvæmlega það sama gerist nú, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega. Það verður ekki aftur snúið þegar búið er að samþykkja orkupakka þrjú, sem er grundvöllurinn að markaðsvæðingu orkunnar á sameiginlega Evrópska efnahagssvæðinu. Það er allt til reiðu þegar búið er að samþykkja orkupakka þrjú. Þegar sæstrengur kemur erum við tilbúin og orðin þátttakendur í þessu sameiginlega markaðssvæði. Það er alger óskhyggja að segja, eins og hæstv. forsætisráðherra gerði í dag, hún sagðist vonast til að sæstrengur kæmi ekki. Þetta er náttúrlega málflutningur sem á ekki að vera svona óákveðinn hvað þetta varðar, það er hlutverk stjórnmálamanna að tryggja að svona hlutir séu ekki í óvissu en ekki segja: Ég vona að þetta gerist ekki. Menn eiga að tryggja að þetta gerist ekki. Þannig á það að vera með stjórnmálamenn. Þeir eiga að tryggja að svona hlutir séu ekki í óvissu og komi ekki til með að hafa afleiðingar þegar að því kemur.