149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þessar spurningar og vangaveltur. Já, þetta er lykilpunktur, það verður ekkert aftur snúið þegar búið verður að samþykkja málið.

Nú er ferlið búið að vera þannig að um nokkurn tíma var reynt að semja við Evrópusambandið um undanþágur frá þessum orkupakka og síðar einstökum greinum hans, eða það yrði saminn ákveðinn texti, aðlögunartexti svokallaður, sem Íslendingar gætu sætt sig við. Þessu var meira og minna öllu hafnað, í það minnsta öllu sem einhverju máli skipti. Undanþága frá gasreglugerð er jafn mikilvæg og undanþága frá járnbrautarreglugerð, það breytir ekki öllu fyrir okkur.

Ég óttast, ekki síst eftir orð hæstv. forsætisráðherra í dag, að mönnum finnist bara sjálfsagt að fara aðra svona ferð með næsta orkupakka, setja af stað allt ferlið, reyna að fá undanþágur sem örugglega fást ekki fyrst þær fást ekki núna, með þeim rökum að við séum búin að innleiða svo mikið að það þýði ekkert að fá undanþágur núna. Og svo standa menn aftur í sömu sporunum með að þurfa að fjalla um það hér á þinginu, mögulega dögum saman, hvort það sé stjórnskipulega rétt að gera þetta með þessum hætti o.s.frv. Í staðinn eigum við að segja núna: Þetta gengur ekki. Við verðum að fá þessu breytt og við ætlum að gera meira en það, við ætlum að kíkja á orkupakka fjögur og sjá hvert á að stefna með þetta orkubandalag allt saman.

Það er okkar réttur, skrifaður inn í þennan samning. Hvers vegna ekki að nýta sér hann þegar svo stórt mál er undir? Við erum að fjalla um auðlindir þjóðarinnar og ekki bara það mál sem við erum með núna heldur til lengri tíma.