149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en að við áttuðum okkur á því í síðustu viku að fjórði orkupakkinn væri tilbúinn, að fullu matreiddur og búið að bera fram og að í dag væru á fullu væntingar í Bretlandi um sæstreng og búið að fjármagna og allt það voru næg álitaefni hér til að fjalla um í tengslum við þetta mál. Ef þessar nýju upplýsingar eru ekki til þess að hvetja hv. þingmenn sem fylgjandi eru málinu til að reyna að átta sig á stóru myndinni, hver tengslin eru og hverjar afleiðingarnar af því að taka allt þetta og innleiða verð ég að segja að það eru mér mikil vonbrigði. Menn hljóta að vilja nota tækifærið og velta fyrir sér hvað þetta skref þeirra gæti þýtt fyrir framtíðina og framhaldið.

Eins og ég hef áður bent á er ekki alveg sjálfgefið að við höfum fyrir framan okkur opna bók þar sem við getum lesið hvað framtíðin ber í skauti sér. Það eru ákveðin forréttindi að geta gert það. Það má alveg segja að að einhverju leyti sé því að þakka að við höfum farið okkur mjög hægt í þessu máli, reynt að fá undanþágur og slíkt, sumir segja slugsað og ekki gert þetta nógu hratt. Allt í lagi með það en þetta er þannig mál að það ber að fara varlega.

Það verður ekki auðveldara að sinna hagsmunagæslunni gagnvart orkupakka fjögur þegar búið verður að klára þetta mál því að með sömu rökum og við reyndum að verjast orkupakka þrjú sagði mótaðilinn okkar: Þið eruð búin að innleiða þetta (Forseti hringir.) og gerðuð það vel.