149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla um bréf sem var sent norsku ríkisstjórninni frá ESA vegna úthlutunar virkjunarleyfa sem samræmdust ekki þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Tilskipunin fjallar um það að Evrópusambandið vill samkvæmt þjónustutilskipun sinni að virkjunarleyfi verði úthlutað til ákveðins tíma, sem er að hámarki 30 ár miðað við það viðmið sem nú liggur fyrir. Fyrirtæki skulu fá virkjunarleyfi eftir útboð þar sem þessi hámarkstími verður á leyfum. Þetta mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar raforkuverðs því að hæstbjóðandi þarf, eðlilega, að fá til baka sína fjárfestingu á skemmri tíma en almennt hefur verið horft til við orkuuppbyggingu, a.m.k. á Íslandi, og ég held að óhætt sé að segja að lengri viðmið en þetta hafi verið uppi í Noregi, svo dæmi sé tekið.

Í Noregi hefur sá háttur verið á að virkjunarleyfi hafa verið gefin út með ótilgreindan gildistíma og það talið vera neytendum til góðs þar sem afskriftatími og fjárfestingar skila sér til baka á löngum tíma. Á Íslandi hafa virkjunarleyfi verið gefin út til 60 ára með sjálfkrafa framlengingu um önnur 60 ár. Eftir minni held ég að Kárahnjúkar hafi verið með 80 ára virkjunarleyfi, en það er sagt án ábyrgðar.

ESA sendi síðan íslensku ríkisstjórninni sams konar bréf og Norðmenn fengu árið 2016 en það bréf virðist hafa verið sett einhvers staðar neðarlega í skjalabunkann, að því er virðist, og beðið eftir samþykkt þriðja orkupakkans áður en frá slíku yrði greint.

Samkeppnislög ESB munu einnig hafa áhrif á orkumarkað Íslendinga. Svo ég orði það óvarlega, varðandi upphrópanir eða sjónarmið Pírata um að það standi hvergi í þriðja orkupakkanum að skipta þurfi upp Landsvirkjun: Það má í sjálfu sér til sanns vegar færa en það stendur kannski frekar í samkeppnislögum Evrópusambandsins að opinberu fyrirtæki sé ekki heimilt að vera með um 85% markaðshlutdeild í samkeppni við einkarekstur og á þeim forsendum væri líklegra að skipta þyrfti upp fyrirtækinu og selja hluta þess. En það er svo sem önnur saga.

Ég ætla að leyfa mér að fara dýpra í það mál sem snýr að virkjunarleyfi og tímaramma útgefins virkjunarleyfis.

Í Noregi eru virkjunarleyfi veitt ótímabundið, eins og ég sagði áðan, og án uppboðs eða tilboðsbeiðna, þannig að í raun er veittur aðgangur að takmarkaðri auðlind gegn gjaldi sem enginn veit hvort er markaðsverð. Þetta kalla sumir ógagnsæi en aðferðin er einföld og ætluð til að lágmarka kostnað sem á endanum lendir á raforkunotendum.

Þetta er hins vegar andstætt þjónustutilskipuninni og EES-samningnum og þess vegna augljóst að niðurstaðan verður sú að gömul og ný virkjunarleyfi verða sett á EES-markað með einum eða öðrum hætti. Nákvæmlega hið sama mun gerast á Íslandi. Virkjunarleyfin í Þjórsá og í Tungnaá, sem ríkið öðlaðist frá Títan-félaginu og lét verða stofnframlag sitt til Landsvirkjun árið 1965, munu verða, og hægt er að nota yfir það eitt hugtak, þ.e. einkavædd. Þau þurfa að fara aftur inn á markaðinn eftir svokallaðri uppboðsleið, verði þetta niðurstaðan, ef ESA og ESB fá vilja sínum framgengt. Þróun mála verður að þessu leyti með sama hætti í EFTA-löndunum og í ESB-löndunum.

Þessu verður erfitt að standa gegn eins og það er erfitt að verjast úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins um varnir Alþingis frá 2009 gegn dýra- og mannasjúkdómum, eins og við þekkjum svo vel. Þessi þróun mála hlýtur að leiða til raforkuverðshækkunar því að hæstbjóðandi, sá sem virkjunarleyfið hreppir til tiltölulega skamms tíma í senn, hlýtur að vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Það mun á endanum koma niður á raforkunotandanum. Sá sem á virkjunarleyfið hefur töglin og hagldirnar varðandi rekstur viðkomandi virkjunar, hver sem eigandi hennar er.

Með þessu móti geta erlend orkufyrirtæki náð kverkataki á virkjunareigandanum og ráðstöfun hans á orkunni. Þar kemur einmitt orkupakki þrjú (Forseti hringir.) til skjalanna því að honum er ætlað að breyta litlum innanlandsmarkaði í risavaxinn innri markað ESB.

Hæstv. forseti. Ég verð að biðja um að setja mig aftur á mælendaskrá. Það er nokkuð eftir af ræðu minni um þetta efnisatriði.