149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kom svolítið inn á Noreg í þessu sambandi. Það er mjög áhugavert og vert að hafa í huga að samskipti Evrópusambandsins og Noregs hafa verið mikil á orkusviðinu, ekki bara í gegnum EES-samninginn heldur einnig með ráðherraviðræðum um langan tíma.

Þess vegna vekur það líka athygli hversu mikil áhersla er lögð á að Ísland, sem er í Norður-Atlantshafi og tilheyrir ekki orkumálum Evrópusambandsins og sameiginlega markaði, innleiði þennan pakka. Maður veltir fyrir sér: Er það hugsanlegt, hv. þingmaður, að norsk stjórnvöld hafi beitt Íslendinga þrýstingi til að samþykkja orkupakkann? Vegna þess að ef við samþykkjum hann ekki er komin biðstaða á þetta málefni, því að öll EFTA-ríkin verða að samþykkja orkutilskipunina til að hún öðlist gildi.

Í ljósi þeirra miklu samskipta milli Noregs og Evrópusambandsins veltir maður fyrir sér hvort þetta valdi áhyggjum í Noregi, þ.e. hjá stjórnvöldum sem eru náttúrlega hlynnt samstarfi við Evrópusambandið þegar kemur að orkumálum, þó að málið sé mjög umdeilt í Noregi. Það hvarflar að manni að þarna sé einhver þrýstingur frá norskum stjórnvöldum um að vera ekkert að rugga þessum báti og að við skulum bara fylgja Norðmönnum hvað þetta varðar. Ég vildi fá skoðun hv. þingmanns á þessu.