149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er oft þannig að þegar Evrópugerðir eru innleiddar fylgir þeim kostnaður. Oft og tíðum er hann jafnvel vanreiknaðar þegar menn leggja af stað vegna þess að við Íslendingar höfum haft þann sið að innleiða Evróputilskipanir út í ystu æsar, oftast nær.

Þessi risastóra innleiðing sem nú er fyrir höndum hefur ekki verið kostnaðarmetin af því að þetta er þingsályktunartillaga. Ég held satt að segja að menn hafi ekki sýnt neina tilburði, sem ég hef heyrt af alla vega og nú leiðréttir þingmaðurinn mig ef ég fer með rangt mál, eða gert minnstu tilraun til þess að kostnaðarmeta þetta mál, bæði hvað varðar ríkissjóð en ekki síst almenning í landinu.

Við erum búnir að benda á það nokkrum sinnum í þessari umræðu að það væri út af fyrir sig nauðsynlegt og æskilegt og kurteislegt að kostnaðarmeta þessa gerð þannig að almenningur í landinu geti gert sér grein fyrir því hvaða áhrif gerðin, innleidd, muni hafa á líf þeirra til skamms og langs tíma.

Nú er það þannig að 62% þjóðarinnar eru á móti þessu máli samkvæmt skoðanakönnunum. Það þarf náttúrlega að kynna þetta fyrir fólki ef það á að vinna málinu fylgi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki rétt að kostnaðarmeta eða gera einhverja hagfræðilega úttekt á því hvað þetta mál muni kosta.