149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Þetta er akkúrat það sem hefur verið kallað eftir í þessari umræðu, sviðsmyndir af því sem tekur við að þriðja pakkanum innleiddum og að sæstreng lögðum. Hvaða efnahagslegu áhrif hefur þetta á raforkuverð til heimila og fyrirtækja, bæði stórnotenda og hefðbundinna notenda? Hver er reynslan af þróun rafmagnsverðs af innleiðingu fyrsta og annars orkupakka? Hvaða lærdóm má draga af því? Allt eru þetta upplýsingar sem ég hef sagt í fyrri ræðum að ég skilji hreinlega ekki að stjórnvöld hafi ekki látið afla og vinna þessar sviðsmyndir fyrir okkur til að auðvelda okkur að taka afstöðu til málsins.

Menn eru ekki alveg í tómarúmi, þeir hafa séð áhrifin af fyrsta og öðrum orkupakkanum og þeir vita hvert raforkuverðið er erlendis og þar fram eftir götunum. Það er því býsna ótrúverðugt að heyra menn halda því fram að innleiðing þriðja orkupakkans muni tryggja lækkun raforkuverðs. Ég verð að viðurkenna að maður bíður dálítið eftir að nefið vaxi á viðkomandi sem heldur slíku fram. Það stenst enga skynsemisskoðun að telja að aukið eftirlit Orkustofnunar muni verða slík bylting á þessum markaði (Forseti hringir.) að raforkuverð muni stórlækka til allra notenda.