149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög athyglisvert. Sú meinta neytendavernd sem hefur fylgt orkupakka tvö hefur orðið til þess að rúmlega 300 heimili hafa skipt um orkusala, af 140.000 heimilum, sem er gríðarlegur árangur. Þess vegna staldraði maður við þegar maður sá þessa steríógrein eða „copy/paste“ eða hvað maður á að kalla hana, þar sem var komist að þeirri merkilegu niðurstöðu að raforkuverð myndi lækka með innleiðingu þessa orkupakka.

Það er þveröfugt við reynslu Norðmanna af sambærilegum pakka. Þar hefur orkuverð hækkað og hækkað svo mikið að samband iðnrekenda t.d., sem hefur að geyma smærri iðnrekendur og smærri fyrirtæki, hefur haft miklar áhyggjur af sinni afkomu enda hefur þurft að segja upp nokkur þúsund starfsmönnum og jafnvel útlit fyrir að það verði meira um uppsagnir akkúrat í þeim geira.

Ég held að það geti varla staðist nokkra skoðun að þessari innleiðingu muni fylgja lækkun orkuverðs til neytenda. Þurfum við ekki þess þá heldur, hv. þingmaður, að fá hagræna reikninga um hver áhrifin raunverulega verða?

Það að 62% þjóðarinnar eru á móti þessum pakka, vilja ekki innleiða hann, stafar ekki af því að einhver hafi verið að hræra í þeim eða hræða þau heldur er þjóðin tortryggin, ekki síst út af reynslu fyrri tveggja pakka sem voru innleiddir.

Nú spyr ég aftur: Er ekki rétt að við förum fram á það með miklum þunga að hagræn áhrif af innleiðingu verði reiknuð? (Forseti hringir.) Það er varla hægt að labba í gegnum þingið með þennan pakka eins og blankó tékka.