149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni hvernig stjórnmálamenn sem töluðu áður mjög gegn orkupakka eitt og tvö hafa skipt um skoðun, sem vekur upp ýmsar spurningar. Ég vil nefna fyrrum ráðherra Sjálfstæðismanna, Björn Bjarnason, sem hefur yfirleitt verið málefnalegur bæði í ræðu og riti. Hann talaði mjög gegn orkupakka eitt og tvö á sínum tíma. Hann segir t.d. þegar hann er fulltrúi Sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á sínum tíma að Evrópusambandstilskipun sú sem frumvarp til nýrra raforkulaga byggist m.a. á — þá er átt við lögin frá 2003 — sé sniðin að allt öðrum kringumstæðum en hér á landi. Hann telur orkutilskipunina frá Evrópusambandinu, þ.e. orkupakka eitt, alls ekki eiga við um íslenskar kringumstæður, „hún er sniðin að allt öðrum aðstæðum en hér á landi“. Því skilji hann ekki hvers vegna ekki hafi verið leitað eftir undanþágu fyrir Ísland frá tilskipuninni.

Núna hins vegar, 2019, er Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í fararbroddi þeirra sem hafna algerlega málflutningi Miðflokksins. Hann hefur gagnrýnt Miðflokkinn mjög harðlega fyrir að hafa staðið gegn innleiðingu orkupakkans og hafnar því t.d. að við leitum sérstaklega eftir undanþágu.

Þetta vekur upp ýmsar spurningar. Hvers vegna taka stjórnmálamenn allt aðra afstöðu — og hann er ekki sá eini sem hefur skipt um skoðun í þessu — en þeir gerðu þegar orkupakki eitt og tvö voru til umræðu á sínum tíma? Ég held að það væri fróðlegt að þessir aðilar skýrðu mál sitt nánar.

Það hefur komið fram að t.d. á Suðurnesjum hafi innleiðing orkupakka eitt gert að verkum að rafmagn til húshitunar hækkaði um allt að 70–90% á köldum svæðum. Ég hef áður nefnt það að Steingrímur J. Sigfússon, hv. þingmaður og þingforseti, talaði einnig mjög kröftuglega gegn þessu á sínum tíma. Síðan má nefna fleiri aðila, eins og t.d. Árna Steinar Jóhannsson, fyrrum þingmann Vinstri grænna. Hann var þeirrar skoðunar að Ísland ætti að sækja um undanþágu frá þessari tilskipun.

Þarna eru þó nokkuð margir sem hafa skipt um skoðun hvað þetta varðar. En ég tek það fram að nú þekki ég ekki skoðanir Árna Steinars Jóhannssonar hvað þetta varðar. En maður veltir fyrir sér: Eru þarna einhverjir hagsmunir, frú forseti, sem er rétt að skýra nánar út? Þetta er mikið innlegg inn í þessa umræðu. Við hlustum eftir skoðunum fyrrverandi ráðamanna, fyrrverandi ráðherra, eins og t.d. hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar. Skoðanir þessara aðila skipta miklu máli. (Forseti hringir.) Þess vegna tel ég, frú forseti, að það sé mjög mikilvægt að þeir sem hafa skipt um skoðun segi okkur hinum frá því hvers vegna.