149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er athugunarefni hvers vegna viss hópur þingmanna og fyrrverandi og núverandi ráðherra, aðallega fyrrverandi, virðist hafa tekið U-beygju einhvers staðar á leiðinni. Þetta er eiginlega því furðulegra þar sem ég segi nú fyrir sjálfan mig að ef ég hefði tekið þátt í því að samþykkja orkupakka eitt og tvö held ég að ég væri enn þá hatrammari í baráttunni gegn númer þrjú. Ég skil ekki hvaða efni eru til þess að menn skipta svona gjörsamlega um kúrs. Því miður hefur hafa menn ekki fært það fram eða við fengið það staðfest.

Við erum kannski búnir að orða það í þessari umræðu að það hefði verið fengur að því að fá hv. þingmann og núverandi hæstv. forseta Alþingis, Steingrím J. Sigfússon, í ræðustól til að flytja okkur eins og eina drápu um það hvers vegna hann er búinn að skipta svo gjörsamlega um skoðun í þessu máli. Og víst er það að auðvitað tökum við eftir því sem menn af hans kalíberi, ef ég get orðað það þannig, frú forseti, hafa fram að færa í þessu máli. Þess vegna hefði það verið mjög dýrmætt fyrir okkur til þess að reyna að skilja hvers vegna þessi sinnaskipti verða.

Hvað varðar menn eins og Björn Bjarnason get ég náttúrlega bara giskað á, eins og hv. þingmaður, hvað það er sem hefur orðið til þess að hann hefur skipt um skoðun svo gjörsamlega, vegna þess að Björn hefur verið þekktur fyrir að vera stefnufastur maður og hleypur ekki til af engu. (Forseti hringir.) Mér þætti gott að fá álit hv. þingmanns á einmitt þessum hugleiðingum.