149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að ég vitnaði í grein í Morgunblaðinu frá því 24. september 2003 þar sem vitnað er í Árna Steinar Jóhannsson, fyrrverandi þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Það var kannski ekki við hæfi þar sem hann er látinn og óþarfi að vera að minnast á hans skoðanir á þessum tíma. Ég biðst velvirðingar á því, frú forseti.

Ég vildi koma nánar inn á það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi þessi skoðanaskipti, sem mér finnst vera vel þess virði að reyna að fara nánar út í. Það kemur t.d. fram í máli fyrrverandi ráðherra, Björns Bjarnasonar, með leyfi forseta:

„Ég hef látið í ljós þá skoðun innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að hafa verði hagsmuni viðskiptavina fyrirtækisins að leiðarljósi við mat á þessu máli. Fram hefur komið í stjórninni, að verði frumvarp til nýrra raforkulaga, sem sagt er taka mið af tilskipun Evrópusambandsins (ESB) að lögum, muni raforkuverð hækka.“

Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Maður skyldi ætla, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega áðan, að þeir aðilar sem töluðu á móti þessu og sáu síðan afleiðingarnar sem fólust í hærra raforkuverði o.s.frv., ættu að átta sig á því hverjar afleiðingarnar voru og ættu þar af leiðandi að vera á móti orkupakka þrjú. Ég er sammála hv. þingmanni hvað þetta varðar.