149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vildi á svipuðum nótum og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fara yfir minn þátt hvað það varðar að vitna til fyrrverandi ráðherra eða alþingismanna. Ég held að þeir séu tveir sem ég hef haft eftir, Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins annars vegar, beint upp úr blaðagrein, orðrétt, með leyfi forseta, og Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, að hluta til beint upp úr blaðagrein en að öðru leyti efnislega. Ég held að ég hafi ekki gert fyrrverandi ráðherra ósáttan með þeim orðum sem ég hafði ekki beint innan gæsalappa eftir honum.