149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir svarið. Ef horft er yfir sviðið hvað fyrrverandi stjórnmálamenn varðar sem hafa tekið þátt í þessum umræðum og skipt um skoðun, og við reynum að ná utan um þann hóp, eru hóparnir býsna ójafnir að stærð.

Í fljótu bragði, án þess að ég nafngreini menn, man ég ekki eftir nema einum fyrrverandi ráðherra sem hefur farið úr þeim hópi að hafa efasemdir yfir í það að styðja málið. En þeir eru ótal margir sem komu með einum eða öðrum hætti að annaðhvort EES-samningnum, innleiðingu fyrsta eða annars orkupakkans, sem eru nú í því liði hvað þriðja orkupakkann varðar að nú sé nóg komið.

Ég hef tilhneigingu til að hlusta á reynsluna, sérstaklega í málum sem spanna yfir svona langan tíma og málum sem geta haft mikil áhrif til lengri tíma og málum sem þeir sem þar tjá sig um hafa reynslu á eigin skinni af málinu sjálfu — í þessu tilviki hafa þessir fyrrverandi stjórnmálamenn með einum eða öðrum hætti reynslu af þessu, annaðhvort gagnvart EES-samningnum sjálfum eða fyrsta eða öðrum orkupakkanum.

Það er sem ég segi: Langflestir hafa snúist í þá áttina að gerast efasemdarmenn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann einhverja skýringu á því að liðin séu svona (Forseti hringir.) ójöfn hvað þetta varðar?