149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, m.a. frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni, að auðvitað er mönnum frjálst að skipta um skoðun og ekkert við því að segja. En jafnframt er óþarfi að setja út á þá sem eru ekki á sömu línu, t.d. hafa fyrrverandi stjórnmálamenn sett út á það að Miðflokkurinn skuli vera að halda uppi þessari öflugu umræðu gegn þessu máli, á sama tíma og viðkomendur voru á sínum tíma á þeirri línu að þetta væri óskynsamlegt en hafa breytt um skoðun.

Það sem hins vegar skiptir máli í þessu er að færa rök fyrir því hvers vegna viðkomendur hafa skipt um skoðun. Þetta eru jú einstaklingar í þjóðfélaginu sem við hlustum alla jafna meira á en aðra í ljósi reynslu þeirra og fyrri starfa. Ég hefði talið að það væri styrkleikamerki hjá þeim að rökstyðja vel hvers vegna beri að fylgja þessum orkupakka. Við í Miðflokknum höfum ekki fundið þann rökstuðning og teljum að þarna sé of langt farið og verið að markaðsvæða orkuna sem veitir okkur á Íslandi mikil lífsgæði og tryggir búsetuskilyrði um allt land vegna þess að orkan er ódýr og hún er hrein. Það vita náttúrlega þeir sem hafa áhuga á henni og (Forseti hringir.) þess vegna verðum við að fara varlega í því að gerast aðilar að sameiginlegu markaðssvæði. Þetta hefur verið okkar málflutningur sem við leggjum mikla áherslu á.