149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:27]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir yfirgripsmikla ræðu eins og við segjum. Hann kom inn á nokkuð marga þætti og mér fannst hann taka þetta svolítið saman, hvernig þetta hefur blasað við okkur. Margar spurningar hafa komið fram undanfarið og sérstaklega þegar við höfum náð að dýpka umræðuna. Þetta eru spurningar sem geta verið svolítið flóknar á þann hátt að ýmiss konar afleiðingar geta komið upp á yfirborðið ef við förum inn í þennan orkulagabálk Evrópusambandsins; afleiðingar á náttúru, atvinnu og umhverfi, alls konar utanríkisviðskipti og eiginlega bara allt íslenskt samfélag, við getum talað um fjölskyldur og fyrirtæki í þessu samhengi.

Mig langar svolítið að spyrja hv. þm. Sigurð Pál Jónsson hvort hann með ræðu sinni hafi gert sér á einhvern hátt grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta allt kunni að hafa. Þá er ég kannski sérstaklega að huga að íslensku samfélagi í heild, fjölskyldum og fyrirtækjum og jafnvel hvernig þetta blasir við fólki um allt land. Það er ekki bara á einhverju einu afmörkuðu horni landsins sem þetta gæti haft áhrif heldur þurfum við að líta á það í heildarsamhengi.