149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ef ég skil hv. þingmann rétt hefur hann fylgst með fréttum þó svo að hann hafi verið í fríi. Það sem hefur gerst er að umræðan hefur vissulega dýpkað og við það að umræðan hafi dýpkað hafa ýmsar leiðir vaknað sem hægt er að fara. Þjóðaratkvæðagreiðsla er nefnd, nefnt er að fresta málinu til haustsins, talað er um að við þurfum alla vega að bíða þar til mál í Stórþinginu verður tekið upp í Noregi 23. september.

Ég hef velt fyrir mér hvort það sé ekki örugglega skoðun hv. þingmanns að einhver af þessum leiðum sé fær. Þá velti ég fyrir mér hvað hann telur best að gera núna, á hverju best sé að byrja. Hver væri okkar ósk ef við fengjum eitthvað í gegn og hvaða möguleikar eru í stöðunni.