149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Þetta mun vera fyrsta ræða hv. þingmanns í þessari umræðu og ég hlakka til að heyra þær fleiri miðað við það sem hv. þingmaður hefur farið yfir nú þegar. Það er einmitt mjög gott að fá svona sjónarmið frá, ég veit ekki hvort má kalla utanaðkomandi, en hv. þingmaður hefur verið, eins og hann nefndi, að fylgjast með umræðunni utan frá og tekst fyrir vikið kannski að setja hlutina svolítið í samhengi fyrir okkur sem höfum verið að ræða málin í þessum sal. Það er mjög vel þegið og fyrir það vil ég þakka.

Hv. þingmaður nefndi einmitt undanþágur sem Ísland hefur fengið frá atriðum sem eiga ekki við hér og nefndi skipaskurði og járnbrautir. Ég myndi þá bæta við, sérstaklega í samhengi við þessi orkumál, að Íslendingar fengu einmitt undanþágu frá jarðgashluta orkupakkans, en hann fjallar bæði um rafmagn og gas.

Þá hlýtur maður að spyrja: Í ljósi þess að við fengum undanþágu frá jarðgastilskipunum eða reglugerðum, fyrst engin framleiðsla er eða alla vega ekki sala á jarðgasi héðan og engin tenging á slíkum leiðslum, því skyldi það sama ekki eiga við um raforkumálin? Því skyldum við ekki geta fengið undanþágu varðandi raforkuna á nákvæmlega sama hátt og við höfum undanþágu varðandi jarðgasið?

Það sem maður óttast að skýri þetta er að menn sjái einfaldlega fyrir sér að breyting verði þar á og landið verði tengt með sæstreng og Evrópusambandið komist í eða fái aðgang að þessari endurnýjanlegu orku Íslendinga. Tekur hv. þingmaður undir þessar áhyggjur mínar, að ástæðan fyrir þessum mun, undanþágu með jarðgas en ekki með rafmagn, sé sú að menn sjái fyrir sér að héðan hefjist útflutningur á rafmagni?