149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:41]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Já, ég er algjörlega sammála því og hef þær áhyggjur. Það var einn sá fyrsti punktur sem fór inn í huga minn þegar þetta mál kom upp, að við höfum ekki neinn sæstreng og því ber okkur ekki að að innleiða þennan pakka.

Við höfum undanþágu, eins og kom fram í andsvari þingmannsins, frá jarðgasi af því að við erum ekki með neina tengingu. Eins kom þar fram með járnbrautir og skipaskurði. Þetta á ekkert við á Íslandi og þess vegna er þessi innleiðing óþörf og við þurfum að vísa þessu aftur til nefndarinnar og þar verði málið tekið upp.

Varðandi það að hafa verið fjarverandi og fylgst með umræðunni í fréttum er það rétt að ég náði að sjá þetta frá annarri hlið en að standa hér í þingsal. Þá kom upp þessi grundvallarhugsun: Hvað gengur okkur til og hvernig stöndum við í þessu sjálf? Er einhver þörf á því, eins og kom fram í ræðu minni, að við sem höfum byggt upp raforkumál okkar á Íslandi á eigin forsendum þurfum að lúta afli annars staðar frá til að vinna í þeim málum? Við erum alveg fullbær til að gera það og það höfum við gert mjög skipulega og vel alla tíð síðan 1936, eins og kom fram í ræðu minni. Við getum alveg haldið áfram. Við erum mjög framarlega í þessum málum og þurfum að vera sjálfstæð í raforkuframleiðslu og raforkusölu í framtíðinni.