149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið sem ég er mjög sáttur við. Tvennt í viðbót langar mig að spyrja hv. þingmann út í. Annars vegar stöðu iðnaðar á Íslandi en kannski sérstaklega með hliðsjón af kjördæmi hv. þingmanns. Þar eru staðir þar sem iðnaður reiðir sig mjög á orku á samkeppnishæfu verði og skiptir miklu máli fyrir samfélagið, a.m.k. að mínu mati. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hefði fyrir slík samfélög ef þessi iðnaður missti samkeppnishæfni sína og flyttist eitthvert annað?

Hitt sem ég myndi vilja spyrja hv. þingmann út í, ef honum gefst tími til að svara: Getur hv. þingmaður ekki tekið undir það með mér, hafandi fylgst með umræðunni, að það sem við erum að reyna að gera hér er að leiða fram lýðræðislegan vilja? Við erum ekki að reyna að leiða fram fyrirskipaðan vilja einhverra þingflokka. Við erum að reyna að leiða fram raunverulegan lýðræðislegan vilja almennings á Íslandi.