149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir upplýsandi ræðu. Ég hvet hann til að halda áfram rannsóknum sínum á þessum þætti málsins sem hann hefur haft frumkvæði að hér á Alþingi, m.a. með eftirtektarverðri fyrirspurn um málið sem við bíðum öll í eftirvæntingu eftir svari við.

Það er eitt atriði sem mig langar að taka upp við hv. þingmann. Það er það sem segir í bréfi þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar. Bréfið er dagsett 10. apríl. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu.“

Er hv. þingmaður sammála mér um það að þarna birtist glöggt munurinn á sendibréfi og álitsgerð? Þarna er ákveðin fullyrðing sem ég dreg ekki á nokkurn hátt í efa. Mér hefði leikið forvitni á að vita og sjá nánari útlistun og rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu. Ég þykist fara nærri um það í hverju svarið liggur. Svarið liggur í því að þessi leið sem þarna var lögð fram og tekin upp af hálfu utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar felst í því — eins og kemur fram í frétt um viðtal við Friðrik Árna Friðriksson Hirst, sem birtist sama dag, 10. apríl, á vefmiðlinum mbl.is — að þá er haft eftir Friðriki Árna að þeim álitamálum sem snúa að stjórnarskránni sé í raun slegið á frest.

En eins og ég segi, ég hefði gjarnan kosið að sjá nánari lögfræðilega útlistun á þessu. Ég leyfi mér að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að gera betri greinarmun á sendibréfi og lögfræðilegri álitsgerð. Auðvitað er það skiljanlegt að í stuttu bréfi sé ekki hægt að fara út í viðamikinn rökstuðning og lögfræðilegar greiningar, en til þess eru auðvitað lögfræðilegar álitsgerðir. Álit hv. þingmanns á þessu væri áhugavert.