149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hann gerði að umtalsefni álitsgerð þeirra félaga Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, ítarlega álitsgerð upp á 43 blaðsíður sem þeir gerðu að beiðni stjórnvalda, hæstv. utanríkisráðherra, og sendu inn og fylgir hún málinu. Einhverju síðar, ég hef ekki dagsetningu á því, senda þeir bréf sem hefur verið kallað áréttingin, þar sem þeir í stuttu máli fara yfir forsendur þeirra leiða sem ríkisstjórnin valdi.

Taka verður mið af því að sú leið sem valin var, sem stjórnvöld ákváðu að velja, er einungis svona endapunkturinn í þeirra ítarlegu og greinargóðu álitsgerð sem er upp á 43 blaðsíður. Þeir enda þá greinargerð á tæpum átta línum á að benda á aðra mögulega lausn, eins og þeir orða það. Ég ætla ekki að lesa hana upp.

Síðan enda þeir, í þeirri uppástungu sem þeir koma með þar, á því að þessi leið sé ekki gallalaus. Þetta bréf sem þeir svo senda utanríkisráðherra, ef ég hef það rétt eftir — ekki er hægt að leggja meira lögfræðilegt mat á það bréf en innihald þess gefur til kynna.

Það sem ég vil segja er að auðvitað væru það rétt vinnubrögð af hæstv. utanríkisráðherra að rannsaka þessa leið miklu betur. Þetta er bara í lok álitsgerðarinnar í örfáum línum, að bent er á einhverja leið — ég ætla að koma betur að þessu í seinna andsvari.