149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í niðurlagi, reyndar á tveimur stöðum, í álitsgerð þeirra tvímenninga er fjallað um þessa mögulegu lausn og það er eiginlega nokkurn veginn sami textinn á báðum stöðum. Þetta er hálf áttunda lína, en þeir segja, með leyfi forseta:

„Möguleg lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt“ — nú koma lykilorðin — „en með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri, t.d. 8. gr. reglugerðar, öðlist ekki gildi, …“

Þarna eru þeir búnir að teikna upp a.m.k. efnisinnihald hins lagalega fyrirvara, þ.e. að reglugerð 713, eða a.m.k. sýnist mér þeir segja að „t.d. 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 öðlist ekki gildi, enda er slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi.“ Segja þeir. Þarna er sem sagt komið efnisinnihald málsins sem þeir leggja til. En lögfræðingar eru þeirrar náttúru, eins og hv. þingmaður náttúrlega gerir sér glögga grein fyrir, að ekki er bara spurt um efni heldur líka form. Og nú hefur staðið yfir víðtæk leit að hinum lagalega fyrirvara og hv. þingmaður hefur haft ákveðnu forystuhlutverki að gegna í þeirri leit.

Ég hefði gjarnan viljað sjá greiningu þeirra félaga á því hvaða form þyrfti að vera á þessum lögfræðilega fyrirvara, en eins og við þekkjum hafa komið fram alls kyns hugmyndir og tillögur í því efni.