149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir þessar vangaveltur sem eru mjög svo áhugaverðar og eru eiginlega kjarni málsins að mínu mati. Þetta er raunverulega kjarni málsins, að þessir ágætu fræðimenn benda þarna á mögulega leið og þeir orða það sem svo, eins og hv. þingmaður las upp, að þessi grein sem mest hefur verið á milli tannanna á andmælendum, 8. gr., feli í sér stjórnarskrárhættu, svona mest en fleiri koma þó til greina líka.

Þarna stinga þeir upp á að 8. gr. öðlist ekki gildi. Hvernig á að gera það? Það er sem sagt með þessum svokallaða lagalega fyrirvara sem allt veltur á. Að 8. gr. öðlist ekki gildi er gert með lagalegum fyrirvara. Nánari leiðbeiningar á því hvað felist í þessum lagalega fyrirvara, hvers efnis hann er nákvæmlega, hvar hann á að birtast og með hvaða móti, skortir. Leiðbeiningar um þetta skortir. Þess vegna varð uppi fótur og fit hjá stjórnarliðinu þegar við spurðum um hann. Menn voru alls ekki með það á hreinu, herra forseti.

Við fengum fjölda svara sem öll ráku sig hvert á annars horn og við höfum verið önnum kafin við að leita að þessum lagalega fyrirvara. Það hefur staðið yfir leit að honum og nú eru menn að áætla að reglugerð sé í ráðuneytinu sem liggur þar, drög að reglugerð, hvort það sé sá lagalegi fyrirvari.

Þá komum við aftur að grundvallarspurningunni: Af hverju var ekki fengin álitsgerð frá lögfræðilegum ráðunautum ríkisstjórnarinnar hvernig nákvæmlega ætti að gera þetta? Menn hlupu svo hratt að þeir ultu á hausinn með þetta.