149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er býsna fín umræða. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni kærlega fyrir. Ég velti fyrir mér því sem hann sagði um lagalega fyrirvarann, að hann sé kominn fram í alls kyns myndum, ef svo má segja. Ég fann upplýsingar sem segja að í mars á þessu ári áttu utanríkisráðherra og framkvæmdastjóri orkumála hjá framkvæmdastjórn ESB viðræður vegna málsins. Í kjölfarið var gefin út sameiginleg fréttatilkynning þar sem staðfestur var sameiginlegur skilningur þeirra á þeirri sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart hinum sameiginlega orkumarkaði. Er þetta lagalegi fyrirvarinn? Í tilkynningunni kemur fram að vegna sérstöðu Íslands sem einangraðs kerfis hafi stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans hvorki gildi né raunhæfa þýðingu hérlendis og það eigi við um ákvæðin um samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, þ.e. ACER og ESA. Ég spyr: Er þetta lagalegi fyrirvarinn?

Það segir einnig í þessari sameiginlegu tilkynningu að gildandi ákvæði þriðja pakkans hafi engin áhrif á fullveldi Íslands. Þarna vil ég setja punktinn því þetta finnst mér vera stærsta álitamálið sem við stöndum frammi fyrir og ég velti upp: Er þetta lagalegi fyrirvarinn?