149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa ekki vitnað beint í eða gefið upp hvaðan ég hafði þessar upplýsingar sem ég nýtti mér áðan í fyrra andsvari. Þetta eru upplýsingar sem liggja á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og eru settar þar fram eins og ég skil þetta í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Það er gott að halda því til haga og hafa það uppi á borðum.

Ég hjó eftir því hjá hv. þingmanni í hans ræðu að nú er Evrópa að kalla eftir hreinni orku og hefur sett sér þau tvö lykilmarkmið vegna orkutækni, eins og það er orðað, að lækka kostnað við hreina orku og hafa ESB-iðnað í fararbroddi, iðnað innan ESB, með ört vaxandi tækni og til þess að minnka kolefnisnotkun. Þá mun framkvæmdastjórn ESB kynna áætlun sem verður að standa við. Þar með liggur Ísland undir og jafnvel Noregur sem búa yfir mikilli hreinni orku og þá velti ég upp hvort við séum algerlega örugg, svo framarlega sem ekki verði lagður hér sæstrengur. Ég velti því fyrir mér hvort þetta snúist allt um sæstrenginn. Við erum að fjalla um orkupakka þrjú og við vitum að pakki fjögur kemur mjög hratt í kjölfarið. Hvar spilar sæstrengurinn inn í þessa tvo pakka?