149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður varpaði fram þeirri spurningu hvort umfjöllun Ríkisútvarpsins um þetta mál og þessa umræðu hér einskorðaðist við tölfræði um lengd og fjölda þeirra ræðna sem hafa verið haldnar um málið. Það er ekki svo, því að umfjöllun Ríkisútvarpsins einskorðast ekki eingöngu við tölfræði. Á föstudagskvöldum mun vera sýndur þáttur á þessari sjónvarpsstöð sem ég held að heiti Föstudagur eða Föstudagskvöld og á að vera eins konar skemmtiþáttur, en gengur út á að vinahópur úr vesturbæ Reykjavíkur og miðbænum hittist á kostnað skattgreiðenda til að bera lof á hópinn, en um leið og kannski fyrst og fremst að hæðast að öðrum. Mér skilst að þessi þáttur hafi fjallað töluvert um þetta mál og þar hafi verið að finna síðasta framlag hv. formanns utanríkismálanefndar til umræðunnar, en það hafi hins vegar allt gengið út á háð og spott og reyndar hvergi minnst á innihald málsins. Að því leytinu til er rétt hjá hv. þingmanni að þó að umfjöllun Ríkisútvarpsins hafi ekki bara einskorðast við tölfræði, þá hefur ekki farið mikið fyrir umfjöllun um innihaldið.

Þá að spurningunni og með tilliti til athugasemda hæstv. forseta áðan. Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni að þessi umræða hefur verið mjög innihaldsrík og gagnleg. En er hv. þingmaður sammála mér um að það væri jafnvel frekar til þess fallið að flýta umræðunni og flýta einhvers konar niðurstöðu í þessu máli ef þeir sem styðja þennan orkupakka hefðu fyrir því að mæta hér og svara, verja sína afstöðu, reyna að útskýra hana fyrir okkur?