149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið og ég þakka honum fyrir að varpa frekara ljósi á umfjöllun ríkisfjölmiðilsins sem mér skilst að beri á herðum sér hlutleysisskyldu að lögum um Ríkisútvarpið. Það væri kannski efni í umræðu að fjalla um það hvernig fjölmiðillinn rækir þá skyldu og hvernig eftirliti er háttað með því að hann ræki almennt sínar skyldur, þar á meðal þessa.

Ég get að sjálfsögðu tekið undir það með hv. þingmanni að það myndi náttúrlega greiða fyrir umræðunni ef veitt væru svör við þeim spurningum sem við höfum lagt fram og þær eru fjölmargar. Ég var með lista áðan sem ég ætlaði að telja upp í ræðu minni og komst bara að með fyrsta atriðið sem snýr að lagalega fyrirvaranum. En ég ætla að vita hvort ég næ að nefna eitt eða tvö í viðbót á þeim knappa tíma sem mér er ætlaður.

Af hverju var ekki veitt undanþága í sameiginlegu nefndinni? Var kannski ekki leitað eftir henni í ljósi þess að við erum ekki með tengingu við Evrópu?

Í sameiginlegu nefndinni var Íslandi veitt undanþága frá jarðgasi þannig að þar var verið að veita Íslandi undanþágu vegna sérstöðu. Við höfum þá sérstöðu að við erum ekki með jarðgas. Við höfum þá sérstöðu að við erum ekki með tengingu við Evrópu. Af hverju fáum við þá undanþágu fyrir jarðgasi en ekki vegna hins þáttarins? Af hverju er ekki nein vitræn umræða um það, leyfi ég mér að segja? Af hverju ekki er leitað til sameiginlegu nefndarinnar (Forseti hringir.) á grundvelli ákvæða í samningnum sjálfum þannig að undanþágur fáist með þeim hætti (Forseti hringir.) sem samningurinn gerir ráð fyrir?