149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ein af þeim grundvallarspurningum sem engin svör hafa fengist við. Við höfum gert heilmargt til að varpa frekara ljósi á þetta og leitt það fram að engin ljón séu í raun í veginum fyrir því að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá þar raunverulega undanþágu eða a.m.k. fara fram á hana. En við fáum engin svör.

Hæstv. utanríkisráðherra leit reyndar við hér í þinginu fyrir nokkrum dögum. Hann svaraði ekki þessari spurningu. Hann benti á að það hefði verið farin önnur leið, útskýrði ekki hvers vegna sú leið hefði verið farin en ekki sú leið sem helst var mælt með. Og raunar eru uppi efasemdir um að ríkisstjórnin og ráðherrann séu að fara lakari leiðina. Þau eru augljóslega ekki að fara betri leiðina í gegnum EES-nefndina en þau eru líklega ekki heldur að fara að lakari leiðina vegna þess að fyrirvararnir hafa ekki fundist. Leitin heldur áfram eins og við þekkjum, en fyrirvari sem hald er í hefur ekki fundist.

Svo benti hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson á þá áhugaverðu staðreynd, og leiddi út með skýrum rökum með því að vísa í frumheimildir, reglugerðina sjálfa, að verði innleiðing þriðja orkupakkans samþykkt þá séum við að innleiða orkupakkann eins og hann leit út í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017, löngu áður en einhver almannatengslafulltrúi, eða ég veit ekki hver átti hugmyndina, fann upp á því að reyna að sannfæra þingflokk Sjálfstæðismanna með því að búa til svokallaða fyrirvara. Með öðrum orðum, það stefnir í að ríkisstjórnin samþykki orkupakka árgerð 2017. Fyrirvararnir (Forseti hringir.) skipta að því er virðist engu máli.