149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann varpar nýju ljósi á umfjöllun ríkisfjölmiðilsins, rétt eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði hér á undan. Það væri áhugavert ef einhver gæti lagt sig eftir því að kynna sér hvaða efni þessi umfjöllun hefur að geyma og hvort það sé snert efnislega á málinu.

Ég ætla að leyfa mér að segja það, herra forseti, að ég hef í örstuttri ræðu og örstuttum andsvörum drepið á og reifað a.m.k. sex mjög veigamikil og þungvæg atriði og reyndar er það svo hvert og eitt þessara atriða felur í sér fjölmargar spurningar sem leita verður svara við.

Þetta mál, herra forseti, er í raun og sanni ekki vel undirbúið. Ég hef á fyrri stigum leyft mér að segja að undirbúningurinn sé í skötulíki, að ekki sé sagt hræmulegur. Málið er á mörkum þess að geta talist þingtækt. Það væri öllum mestur sómi að því að það yrði dregið til baka og ríkisstjórnin myndi vanda sig betur og leitast við að svara þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram og reyna að vinna því fylgi líka meðal þjóðarinnar ef þess væri kostur. En ég leyfi mér að efast um að það sé hægt. Þjóðin virðist vera mjög andvíg málinu eins og við þingmenn Miðflokksins finnum í fjölmörgum skilaboðum sem okkur hafa borist síðan þessar umræður hófust.