149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir þessar mikilvægu upplýsingar og kannski Ríkisútvarpið birti jafnvel frétt um að svo sé komið.

Þetta mál er, eins og ég rakti í fyrra svari við andsvari hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, ekki vel undirbúið, svo vægt sé til orða tekið. Mig langar til að nefna í því sambandi kannski tvö atriði til viðbótar, en það er af nógu að taka.

Ef við lítum á það sem lögð er áhersla á í umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar þar sem hann ræðir af sinni þekkingu, hafandi verið í fremstu röð í þessu máli á sínum tíma þegar við gengum inn í EES-samstarfið, það sem er meginatriði: Um leið og vel sé á það lítandi að þjóðir eða aðilar að því samstarfi geri með sér samkomulag um gagnkvæman aðgang að markaði þá kom ekki til greina, eins og hann orðar það, að fyrir aðgang að markaði komi aðgangur að auðlind.

Nú stöndum við frammi fyrir því að við erum með lögfræðilegt álit sem verður vart túlkað með öðrum hætti en þeim að hér sé a.m.k. að nokkru leyti veittur aðgangur að auðlind. Af hverju efnir ríkisstjórnin til grundvallarbreytinga á utanríkisstefnunni eins og henni hefur verið fylgt?