149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Síðan umræðan um þriðja orkupakkann hófst hafa svokallaðir fyrirvarar verði settir á oddinn og ríkisstjórnin hefur haldið því fram að búið sé að setja fyrirvara svo að við þurfum því ekki að hafa neinar áhyggjur eða almennt að velta málinu fyrir okkur. En við nánari skoðun sést að umræddir fyrirvarar eru ekki til staðar, við höfum ekki fundið þá, þ.e. er varðar reglugerðir orkupakkans.

Innleiðing á reglugerðum Evrópusambandsins er gerð í samráði við aðrar þjóðir. Þær reglugerðir eru því eins fyrir allar þjóðir sem að þessum sáttmála koma. Þær má finna á fleiri en einu tungumáli. Það þýðir að reglugerðir orkupakkans fyrir Ísland eru nákvæmlega eins og reglugerðir orkupakkans fyrir önnur EFTA-lönd. Ef við ætlum að setja fyrirvara inn í slíkar reglugerðir þá þarf að gera það í samráði við þær þjóðir sem að sáttmálanum ganga og þar með í sátt við EES-samninginn.

En um hvað snýst fyrirvarinn? Hann er í raun loforð frá löggjafanum til sín sjálfs, ef við getum sagt svo, um að kanna hvort regluverkið standist stjórnarskrá ef til þess kemur að hingað verður lagður sæstrengur. Við getum svo deilt um hversu mikils virði loforð löggjafans er gagnvart sjálfu sér. Einnig er það staðreynd að fyrirvarinn á eingöngu við um sæstrenginn og má halda því fram að hann hafi hreinlega ekkert með orkupakkann að gera.

Fari svo að þingsályktunartillagan um orkupakkann verði samþykkt á Alþingi mun Ísland verða síðasta landið í EFTA-samstarfinu til að aflétta svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvörum gagnvart orkupakkanum. Þegar Ísland afléttir stjórnskipulegum fyrirvörum verða reglugerðir orkupakkans nr. 713/2009, 714/2009, 543/2013 og 2009/72/EB innleiddar í IV. viðauka EES-samningsins og taka gildi fyrir okkur. Þetta ferli er nokkuð skýrt. Það er hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Þegar búið er að innleiða þriðja orkupakkann eins og gert verður ef þingið samþykkir þingsályktunartillögu um hann, fer af stað ákveðið ferli við að aðlaga íslensk lög í samræmi við reglugerðirnar.

En aftur að fyrirvaranum. Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 713/2009, sem varðar raforkutengingar á milli landa, ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á. Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.

Þarna kemur fram að Ísland ætlar sér ekki að breyta lögunum núna í samræmi við þær málsgreinar í reglugerðunum sem hafa með milliríkjaviðskipti að gera, þær verða geymdar til seinni tíma eða þangað til einhver hefur hug á því að leggja hingað sæstreng. Við höfum nú þegar séð merki um þvílíkan áhuga á því.

Rétt er í þessu sambandi að vekja athygli á því að innan ESB gilda reglur um forgangsáhrif. Þær reglur kveða á um að reglur ESB séu í öllum tilfellum rétthærri en lög og reglur aðildarríkjanna. Þetta finnst mér mjög mikilvægur punktur og þykir rétt að benda á hann. Ég sé að tími minn er alveg að verða búinn þannig að ég klára í næstu ræðu og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.