149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Fyrirvararnir hafa ýmist verið kallaðir sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna eða yfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Það má finna snefil af fyrirvarahugsun í greinargerð. Síðan las ég mér til gagns áðan um að fyrirvari gæti hugsanlega falist í sameiginlegri fréttatilkynningu. Þetta las ég upp í andsvari áðan.

Gefum okkur að fólk sé að vinna að þessu af heilum hug og fólk trúi því virkilega að þessir fyrirvarar haldi, þá er kannski enn augljósara að bíða ætti eftir niðurstöðu þegar málið verður tekið fyrir í Noregi þann 23. september næstkomandi, enda setti Noregur átta fyrirvara. Ég held að við höfum talað um að þeir fyrirvarar hafi verið settir í — alla vega voru liðnir 14, 15, 16 mánuðir og ekki voru þeir komnir í ljós. Á sama tíma virðist það vera þannig að ef settir eru fyrirvarar eiga þeir í rauninni að finnast eða koma í ljós eða taka gildi innan sex mánaða, það sé einhvers konar regla.

Ég er enn á því að við séum ekki búin að tryggja okkur í bak og fyrir. Ég held að við eigum að flýta okkur hægt og það er kominn tími til að farið verði í dýptina á málinu. Þá verður maður enn og aftur að biðla til fjölmiðla til að varpa ljósi á hvernig þetta allt saman er vaxið. Þetta er ekki svona klippt og skorið. Við höfum sýnt það í málflutningi okkar að svo er ekki.