149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hnaut einmitt um það í morgun, hv. þingmaður, að ríkisfjölmiðillinn listaði mjög nákvæmlega upp fjölda ræðna sem hver þingmaður Miðflokksins hafði haldið og tímafjölda. Nú er þetta ekki íþróttamót. Þetta er umræða um mál sem skiptir þjóðina miklu inn í framtíðina, skiptir börnin okkar og barnabörnin miklu og ég hefði haldið að það hefði kannski verið 4.000 millj. kr. virði að fara yfir efni einhverra þessara ræðna sem fluttar hafa verið hér, bæði í nótt og undanfarna daga, margar afbragðsgóðar og upplýsandi, í stað þess að vera að telja mínútur. En kannski er ríkisfjölmiðillinn ekki enn kominn út úr Eurovision þar sem allt gengur út á að mæla, telja stig og mæla mínútur, þannig að það kann vel að vera að hann sé upptekinn af því þess vegna.

En það var nú ekki það sem ég ætlaði að tala um við hv. þingmann. Ég ætlaði einmitt að þakka henni fyrir að benda á það að nú í september ætlar stjórnlagadómstóll í Noregi að fjalla um fyrirvara sem Norðmenn settu við innleiðingu sína á þriðja orkupakkanum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann álits á því hvað henni finnst um að við séum að innleiða þennan orkupakka á þann fátæklega hátt sem við erum að gera með fyrirvörum sem eru eiginlega ekki túkalls virði, áður en í ljós kemur hvaða örlög, ef ég get orðað það þannig, fyrirvarar Norðmanna við málið munu fá í stjórnlagadómstól.

Mig langar að biðja hv. þingmann að gefa okkur stutt yfirlit um það hvað henni finnst akkúrat um þessa aðferð eða þessa áætlun um að gera þetta með þessum hætti?