149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir nefndi fyrirvarann sem við höfum leitað mikið að. Oft má sjá hv. þm. Karl Gauta Hjaltason sitja yfir stórum bunkum af blöðum með lesgleraugun á nefbroddinum og yfirstrikunarpenna í einum fimm litum að leita að vísbendingum um hvar fyrirvarann kunni að vera að finna. Sú rannsókn heldur áfram. Hv. þingmaður, fyrrverandi lögreglustjóri, sýslumaður og skólastjóri, hann gefst ekki upp. En hvað ef fyrirvarinn er ekki til og var aldrei til? Og hvað ef jafnvel þótt fyrirvarinn væri til? Það myndi ekki skipta neinu máli.

Nú ætla ég að spyrja hv. þingmann út í atriði sem kom fram hér eina nóttina í ræðum hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar sem flutti mál sitt með snilldarlegum hætti eins og lögmaður að fara yfir mál fyrir Hæstarétti. Hann leiddi það út með vísan í lög og reglugerðir að verði innleiðing þriðja orkupakkans samþykkt á þinginu þá feli það í sér fulla innleiðingu orkupakkans eins og hann leit út árið 2017 þegar hann var síðast fyrir sameiginlegu EES-nefndinni. Þá var enginn byrjaður að tala um þennan fyrirvara. Með öðrum orðum, það reynist rétt sem meðal annarra Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, hefur bent á, að fyrirvaratalið sé bara blekking.

Er þetta ekki staðfesting þess sem við höfum verið að benda á? Eina leiðin er að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar (Forseti hringir.) því þegar það er innleitt þá er það innleitt eins og gengið var frá því þar.