149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þriðji orkupakkinn ýtir að mínu mati a.m.k. mjög undir að sæstrengur verði lagður og það virðist ekki bara vera mitt mat því nú birtust um helgina fréttir í Sunday Times þar sem kom fram að undirbúningur sæstrengslagningar til Íslands af einkaaðilum væri mjög langt kominn og virtust þeir aðilar sem að því verkefni standa eingöngu bíða eftir stimpli frá breska viðskiptaráðherranum. Innleiðing þessa pakka og í samhengi auðvitað við ýmsar aðrar reglugerðir, m.a. á sviði samkeppnismála, er til þess fallin að ryðja úr vegi hindrunum, ekki hvað síst ef einkaaðilar lýsa sig reiðubúna til þess að ráðast í þessa framkvæmd. Þá verður það gert á forsendum Evrópusambandsins, verði búið að innleiða þriðja orkupakkann.

En ég tek hins vegar undir það sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir segir um framhaldið sem birtist í fjórða orkupakkanum. Það er til þess fallið að auka enn líkurnar á því að af þessu verði. Ég óttast hins vegar að þriðji pakkinn nægi til að ýta undir sæstrengslagningu. Þá séu menn orðnir tjóðraðir, fastir í Evrópuregluverkinu, og þá komi fjórði pakkinn um svipað leyti og fyrir vikið verður allt í orkumálum hér gert undir handleiðslu erlendrar stofnunar sem heyrir ekki undir íslenskan almenning heldur ókjörna embættismenn í útlöndum.