149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

umræða um þriðja orkupakkann.

[13:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég vona að forseti skynji kaldhæðnina í ræðum hæstv. forseta og raunar flokksfélaga hans úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þeir félagar hafa stundum þurft að tjá sig heilmikið, svoleiðis að þegar hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kallar hlutina svo að auki hræsni bætist enn í kaldhæðnina.

Ég vildi bara ítreka það sem hv. þingmenn hafa bent á hér á undan, að við höfum margítrekað boðist til að ræða hér hvaða mál sem er og flýta fyrir þingstörfum. Ég hef líka bent á að þessi nýja nálgun hæstv. forseta, sem hefur aldrei verið reynd áður eftir því sem ég kemst næst, að láta umræðuna helst fara fram um miðjar nætur og langt fram á næsta morgun og jafnvel næsta dag, hefur ekki reynst neitt sérstaklega heilladrjúg ef markmiðið er að flýta málinu. (Forseti hringir.) Þegar umræður fara fram í skjóli nætur er viðbúið að fólk nái ekki að fylgjast með þeim og að þá þurfi að ítreka eitthvað sem þar kemur fram.