149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:40]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Sl. nótt hóf ég ræðu um samspilið milli regluverksins sem birtist í orkupakka þrjú og annars regluverks Evrópusambandsins. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði sem ég verð raunar að geta að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason gerði fyrst að umtalsefni og afskaplega mikilvægt að skoða þetta í samhengi enda spilar þetta allt saman í raun. Hins vegar vildi svo óheppilega til í morgun að ræðan um þetta mál týndist. Ég þarf því að færa mig í bili í næstu ræðu en hæstv. forseti þarf ekkert að óttast, þessi ræða er ekki eins týnd og fyrirvarinn og mun finnast og verða flutt síðar.

Þá að næstu ræðu er varðar Noreg og hvað við getum lært af reynslu Norðmanna. Ég hef áður fjallað um norsku fyrirvarana, átta fyrirvara norska Stórþingsins, og ætla ekki að fara aftur yfir þá hér. Ég ætla hins vegar að fara aðeins yfir hvernig þetta mál gekk fyrir sig í norska þinginu því að það getur veitt okkur ákveðna innsýn í þá stöðu sem er hér uppi. Í því mun ég styðjast við stutta endursögn úr umfjöllun Aftenposten, norska dagblaðsins, endursögn sem birtist í Viðskiptablaðinu. Ég ætla að grípa aðeins niður í stutta grein Viðskiptablaðsins frá 22. mars 2018, en þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hluti norska þingsins hefur samþykkt innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins (ESB). Ríkisstjórnarflokkarnir þrír – Hægriflokkurinn, Framfaraflokkurinn og Vinstriflokkurinn“ — er það þýtt hér, væntanlega Venstre — „sem saman mynda minnihlutastjórn — ásamt Verkamannaflokknum og Græningjum kusu með pakkanum.“

Þarna þarf að koma smáathugasemd, herra forseti, því að ríkisstjórnarflokkarnir, en þó sérstaklega auðvitað hægri flokkurinn og Venstre, eru miklir Evrópusambandsflokkar. Þingmenn þessara flokka held ég að megi segja upp til hópa eru ákafir Evrópusambandssinnar og verður að líta á afstöðu þeirra í því ljósi. Hins vegar voru umtalsverðar efasemdir um þetta mál, ekki hvað síst meðal þingmanna Verkamannaflokksins, raunar hjá Græningjum líka, tel ég, og því var orðið ljóst að ekki væri meiri hluti fyrir þessu máli í norska þinginu. Það gæti ekki afgreitt það nema með því að fallast á kröfu norska Verkamannaflokksins um að samhliða afgreiðslunni yrðu settir lagalegir fyrirvarar, fyrirvararnir sem ég gat um hér áðan og hef rakið í ræðu. Einungis þannig var hægt að fá stuðning meiri hluta þingsins við þessa innleiðingu.

Svo segir hér í greininni, forseti:

„Þriðja orkupakka ESB er ætlað að opna orkumarkaði í Evrópu og tengja saman orkukerfi einstakra aðildarríkja ESB. Pakkinn felur í sér að teknar verði upp alls sex ESB-gerðir í EES-samninginn. Þrjár þeirra varða raforkumarkaðinn og tvær eru á sviði jarðgass. Sjötta gerðin mælir fyrir um að komið verði á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem nefnist ACER … ACER er meðal annars falið, við sérstakar aðstæður, að skera úr um deilumál milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda er varða grunnvirki sem ná yfir landamæri.“

Þetta varð einmitt eitt af meginumræðuefnunum og meginágreiningsefnunum í norska Stórþinginu og það þrátt fyrir að Norðmenn séu þegar tengdir evrópska raforkukerfinu um tvo sæstrengi. Margir þingmenn óttuðust að innleiðing þriðja orkupakkans myndi knýja á um eða ýta undir lagningu þriðja strengsins til Skotlands og að það yrði þá gert undir handleiðslu þessarar stofnunar, ACER, eða á forsendum Evrópusambandsins. Þetta eru áhyggjur sem við könnumst við í umræðunni hér.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Mikið hefur verið rætt um þriðja orkupakkann í Noregi síðustu misseri, en lítið hefur farið fyrir umræðu um pakkann hér á landi. Málið þykir umdeilt í Noregi, sem er hluti af innri orkumarkaði ESB ólíkt Íslandi, en meiri hluti Norðmanna var andvígur pakkanum og ACER, samkvæmt skoðanakönnunum.“

Enn er þetta mjög kunnuglegt. (Forseti hringir.) Þó hef ég ekki náð að klára þessa yfirferð sem er mjög upplýsandi fyrir okkur í íslenska þinginu, að skoða reynslu Norðmanna.