Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ræðuna. Ég tel fulla þörf á því að draga miklu skýrar fram í þessari umræðu reynslu Norðmanna. Við erum með Norðmönnum í EFTA-samstarfinu og fyrir utan að þeir eru meðal okkar allra nánustu vina- og frændþjóða er sjálfsagt mál að við drögum lærdóm af þeirra reynslu. Það var mjög áhugavert að heyra hvernig hv. þingmaður rakti þær pólitísku sviptingar sem áttu sér stað áður en orkupakki þrjú fékkst samþykktur í Stórþinginu. Það er mjög áhugavert að það þurfti atbeina Verkamannaflokksins til og að hann skyldi gera þá kröfu fyrir stuðningi að settir yrðu ekki færri en átta fyrirvarar. Ég tel alveg nauðsynlegt að lögð sé fram ítarleg greining á því hver hafi orðið afdrif þessara fyrirvara og sömuleiðis leyfi ég mér að segja að ég tel mjög óhyggilegt að orkupakkinn verði samþykktur hér áður en að fréttir berast af fyrirhugaðri ákvörðun, dómi eða hvað það nú verður sem ráðgerður er á vettvangi stjórnlagadómstólsins norska 23. september nk.

Ég ítreka, herra forseti, að mér þykir það mjög óhyggilegt að læra ekki af reynslu Norðmanna í þessum efnum.