149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þessu tengt er það að við höfum staðið frammi fyrir því að ríkisstjórnin og þeir sem bera þetta mál fram segja að til að bæta upp fyrir þá vankanta sem kunna að vera á málinu vegna árekstra við ákvæði stjórnarskrárinnar eigi að innleiða þessar gerðir sem orkupakkinn stendur saman af í krafti lagalegs fyrirvara. Eins og hv. þingmaður nefndi hefur ekki enn þá tekist að finna hann en þó leikur viss grunur á um að hann eigi að vera á formi innskotsgreinar í reglugerð sem mun áformað að gefa út af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra. Menn geta auðvitað velt fyrir sér hvaða lögfræðilegt afl er að baki slíku skjali og vegið það og metið á móti afli þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem við öxlum með því að innleiða orkupakkann.

Fólki til upprifjunar er rétt að gera sér grein fyrir því að innleiðingin á orkupakkanum, fari svo að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt, felur það í sér að þessar tvær reglugerðir sem mest hafa verið nefndar hérna, 713 og 714, fá lagagildi á Íslandi. Að þessu samþykktu öllu saman er erfitt að sjá hvernig aftur verði snúið og þess vegna spyr maður: Hvar er lögfræðileg álitsgerð um það, til að mynda af hálfu þeirra tveggja höfunda sem oftast eru nefndir, hvort reglugerð ráðherra dugi hér sem lagalegur fyrirvari?