149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna, þessa tilvitnun og upplestur úr grein Haralds Ólafssonar. Sú grein er alveg glæný. Greinar og umfjöllun af þessu tagi hafa vegna umræðunnar dýpkað málið og upp hafa komið fleiri spurningar sem þarf að svara skilyrðislaust áður en gengið er lengra í þessu máli. Þar eru alltaf fleiri og fleiri sammála og eins má spyrja: Hvað er að því að fresta málinu til hausts og koma þá betur nestuð til baka?

Í greininni er talað um að meintir fyrirvarar séu sveipaðir dulúð. Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn geti aðeins varpað ljósi á þá dulúð frá sínum bæjardyrum séð. Hefur þingmaðurinn skoðun á þessu tiltekna atriði, hvaða lærdóm megi draga af því sem þessi málsmetandi maður, veðurfræðingurinn Haraldur Ólafsson, er að fara í þessu máli?