149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:16]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hef ég aðeins staldrað við möguleg áhrif orkupakka fjögur, svokallaðan vetrarpakka, á okkur Íslendinga miðað við það sem fram kemur í skýrslu sem gerð var um möguleg áhrif hans í Noregi. Í skýrslunni er því haldið fram að það muni stofna fjölda mörgum störfum í hættu ef haldið verður áfram að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins. Sá orkupakki heitir, með leyfi forseta, á ensku: Clean Energy for all Europeans, sem er ágætisnafn í sjálfu sér, en með því fær ACER, þ.e. með fjórða orkupakkanum, aukið vald um flæði raforku á milli landa. Það mun þýða að það verði þá sama raforkuverð á öllu svæðinu, og þá er ég að tala um á öllu evrópska raforkusvæðinu.

Þetta vil ég setja í samhengi við fyrirtæki hér á landi sem við viljum gjarnan halda um allt land, og spyrja hvort hv. þingmaður hafi gert sér eitthvað í hugarlund, t.d. með Kárahnjúkavirkjun, hvað verður með slíka starfsemi, og svo bara með minni iðnað sem fólk er að reyna að byggja upp um allt land.