149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það fer ekki hjá því að Norðmenn eru náttúrlega frekar skelkaðir yfir orkupakka fjögur vegna þess að þeir hafa jú innleitt orkupakka þrjú, að vísu með átta fyrirvörum sem eru núna til meðferðar hjá stjórnlagadómstól eða verða teknir fyrir í september næstkomandi, þannig að við vitum ekki alveg hvernig fer um þá innleiðingu. Hún hefur alla vega haft þau áhrif til þessa að verð hefur verulega hækkað á rafmagni. Samtök iðnaðarins í Noregi, þ.e. samtök smærri og meðalstórra fyrirtækja, hafa orðið fyrir því að rekstur þeirra hefur versnað að mun, þúsundir manna hafa misst vinnuna og spáð er að þúsundir í viðbót verði fyrir því sama.

Í nótt eða í morgun vitnaði ég í grein eftir fyrrverandi hæstv. ráðherra og hv. þingmann, Sighvat Björgvinsson. Seint verður sá ágæti maður sakaður um að draga taum Miðflokksins. Og seint verður sá ágæti maður sakaður um það sem kallað hefur verið þjóðernispopúlismi. En hann hefur varað eindregið við þessari innleiðingu sem við stöndum núna frammi fyrir og mun hafa enn frekari áhrif þegar orkupakki fjögur dynur yfir; í fyrsta lagi út af hækkuðu orkuverði og í öðru lagi, bara svo ég dragi þetta saman í örfáar setningar það sem fyrrverandi hv. þingmaður sagði, vegna hækkaðs orkuverðs til almennings og vegna aukinna áhrifa og valda yfirþjóðlegra stofnana sem geta skákað hér málum í orkugeiranum eins og Evrópusambandinu kemur best. Því miður er það svo að meiri hluti á Alþingi hefur ekki hlustað á menn eins og þennan ágæta fyrrverandi hv. þingmann (Forseti hringir.) okkur öllum til tjóns.