149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil halda því fram að sú vandaða og málefnalega umræða sem hér hefur farið fram á þinginu undanfarna daga og nætur sé kannski sú kynning sem almenningur hefði átt að fá af hálfu stjórnvalda. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki sinnt því, utan þess að utanríkisráðherra fór einhvern rúnt um landið til að kynna þriðja orkupakkann, innvígðum. En eins og ástandið er í Sjálfstæðisflokknum veit maður svo sem ekkert um hvort ferðin var farin til að kynna utanríkisráðherra eða orkupakkann.

Ég lít þannig á að fjölmiðlar, sér í lagi ríkisfjölmiðillinn, hafi skyldum að gegna sem þeir hafi ekki uppfyllt. Bara núna í morgun til dæmis, hnaut ég um frétt, ef frétt skyldi kalla, um umræðurnar á Alþingi og búið var að setja upp töflu, eins og í Eurovision, um fjöldann af ræðum, mínútur og eitthvað slíkt, en um innihaldið var ekki neitt, ekki nokkur skapaður hlutur.

Auðvitað ætti, sérstaklega ríkisfjölmiðillinn, að setja upp kynningarþætti í svona stóru máli, þá meina ég kynningarþætti, ekki áróðursþætti, þar sem kostir og lestir eru settir fram á málinu og auðvitað ættu stjórnvöld að sjá til þess að eitthvað af þeim 4.000 milljónum sem fer í að reka ríkisfjölmiðilinn væri kannski varið í það að upplýsa almenning í landinu hvað þetta mál er, um hvað það er, hvaða áhrif það hefur til nútíðar og framtíðar og það sem á eftir kemur.

Í stuttu máli: Mér finnst fjölmiðlar hafa brugðist í þessu máli.