149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem ég lauk máli mínu í síðustu ræðu, þar sem ég átti eftir að fjalla um hvort þörf væri á fyrirvörunum. Í máli nokkurra þingmanna hefur komið fram að fyrirvararnir séu kannski engir og þá sé í rauninni hvergi að finna og þess vegna sé málið sveipað dulúð, eins og greinarritari Kjarnans, Haraldur Ólafsson, talaði um í grein dagsins.

Innan orkupakkans er fjöldinn allur af málsgreinum og margar þeirra hafa ekkert með svokölluð milliríkjaviðskipti í orkumálum að gera. Þær málsgreinar hafa engan fyrirvara og munu því taka gildi að fullu þegar búið er að aflétta þessum stjórnskipulegu fyrirvörum um orkupakkann. Til dæmis má nefna frumvarp til laga sem ber heitið: Raforkulög og Orkustofnun. Og frumvarp sem ber heitið: Raforkulög. Frumvörp þessi eru sett fram af hæstv. ráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og eru komin á dagskrá þingsins. Í frumvörpunum eru gerðar breytingar á raforkulögum til að samræma nýjum Evrópureglugerðum sem stefnt er að að innleiða í gegnum orkupakkann.

Manni hefur stundum dottið í hug að verið sé að gera þetta allt í rangri röð. Fyrst þurfum við kannski að breyta okkar lögum til að innleiða reglugerðir, en það er eitthvað sem segir mér að þetta sé viljandi haft með þessum hætti. Þá vaknar sú spurning hvort þörf sé á að setja fyrirvarana ef okkur er sagt í hinu orðinu að þeir hafi ekkert gildi, að þeir skipti engu máli. Samt sem áður varð uppi fótur og fit þegar við vöktum máls á því að fyrirvararnir þá, væru hugsanlega aðeins yfirlýsing, fréttatilkynning eða viljayfirlýsing og hefði þar af leiðandi ekkert raunverulegt lagalegt gildi þó að slíkar yfirlýsingar hafi vissulega einhvers konar pólitískt gildi.

Ég velti þessum fyrirvörum fyrir mér þar sem ekki eru nein áform um að leggja sæstreng, alla vega ekki í orkupakka þrjú, eins og okkur er sagt. Þær málsgreinar sem þessir fyrirvarar eru um fjalla einmitt um það en koma okkur ekki við í sambandi við orkupakkann. Við þurfum samt að gera okkur grein fyrir því að þær reglugerðir sem verið er að innleiða hafa alltaf hærri rétt, eru rétthærri en íslensk lög. Það er, held ég, óumdeilanleg staðreynd sem hefur komið fram. Þrátt fyrir þetta kemur upp önnur staða og jafnvel verri, eins og fram hefur komið í álitsgerð lögfræðinganna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, sem eru mjög hæfir og hlutlausir sérfræðingar, vil ég segja.

Þeir halda því fram að með orkupakkanum sé ríkisvald framselt til alþjóðlegrar stofnunar og er þá vafi á því hvort það standist stjórnarskrána. En hvað þýðir það þá? Það þýðir að samþykki ríkisstjórnin að leggja síðan sæstreng til Íslands verðum við að brjóta stjórnarskrána vegna gildandi reglugerðar um orkupakka þrjú. Þetta hangir þannig saman. Og þá höfum við aðeins tvo möguleika ef einhver ríkisstjórn framtíðarinnar samþykkir að leggja sæstreng, þ.e. að breyta stjórnarskránni eða að segja okkur úr EES-samningnum.

Ég sé að tími minn er að verða búinn, ég verð að taka lokin á þessu síðar.