149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir rifjar upp að þetta mál bar ekki á góma í síðustu kosningabaráttu og það gerði það svo sannarlega ekki. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að stjórnarflokkarnir þrír hafa allir stefnu sem er á annan hátt en þann að fulltrúar þeirra á Alþingi standi að því að framselja ríkisvald í þeim mæli sem hér er.

Ég minni á orð í tilvitnaðri álitsgerð tvímenninganna, Friðriks Árna og Stefáns Más, að framsalið sem um er að ræða í þessu orkumáli sé meira en dæmi eru um í sögu EES-samningsins af okkar hálfu.

Mig langar til, herra forseti, að vekja athygli á athyglisverðum ummælum í þeirri grein sem hv. þingmaður vakti athygli á. Þar segir Haraldur Ólafsson, með leyfi forseta:

„Fjölmargar spurningar hafa komið fram á Alþingi að undanförnu, bæði að degi til og að næturlagi. Spurningarnar lúta að margháttuðum afleiðingum þess að gangast undir orkulagabálk Evrópusambandsins, afleiðingum hans í orkumálum fyrir atvinnu, náttúru og umhverfi, utanríkisviðskipti og íslenskt samfélag í heild sinni. Þá eru meintir fyrirvarar sveipaðir dulúð svo vægt sé til orða tekið.“ — Mætti margt um þetta segja, leyfi ég mér að bæta við. — „Stjórnvöld sem vilja láta taka sig alvarlega hljóta að reyna að svara þeim spurningum sem er ósvarað áður en tekið er skref sem erfitt verður að stíga til baka.“

Herra forseti. Frestum þessu orkupakkamáli, a.m.k. til hausts og helst fram yfir kosningar.