149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:38]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir prýðisræðu og aftur kemur meiri dýpt í umræðuna með nýjum spurningum, nýjum upplýsingum sem gera það að verkum að málið dýpkar. Ég setti fjóra punkta á blað hjá mér þegar ég hlustaði á ræðuna. Það eru lögformlegir fyrirvarar, valdframsal og svo var komin inn spurning áðan um að afla sér umboðs almennings með stefnumálum sínum, hvort við ættum ekki að fresta málinu fram yfir næstu kosningar. Mér fannst þetta ansi áhugaverður punktur þar sem mikið af ályktunum aðalfunda ýmissa flokka eru algjörlega á skjön við það sem þeir mæla fyrir í dag. Og svo eru það auðlindirnar. Mér kom í hug áðan hvað maður var stoltur af því að fylgjast með því á sínum tíma sem ungur maður þegar við börðumst fyrir landhelginni okkar, 50 mílum og síðan 200 mílum. Þá var ekki talað um þjóðernispopúlisma eða annað slíkt.

Mig langar til að spyrja þingmanninn, af því að við erum að tala um frest, hvort það sé ekki grundvallaratriði að svara þessu með valdframsalið gagnvart stjórnarskránni og síðan um þá lögformlegu fyrirvara sem eru sveipaðir dulúð, eins og kemur fram í títtnefndri grein sem vitnað var í áðan, (Forseti hringir.) að ljósi verði varpað á þau tvö mál hið minnsta.