149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við þingmenn Miðflokksins höfum margsinnis vakið máls á því í þessari umræðu hversu nauðsynlegt það er að læra af reynslu Norðmanna. Við höfum ekki síst talað um þetta í ljósi þess að frétta er að vænta af vettvangi norska stjórnlagadómstólsins þar sem hann mun fjalla um fyrirvarana átta í samhengi við norsku stjórnarskrána og er gert ráð fyrir því að þessara frétta verði að vænta 23. september.

Til að undirstrika á hvaða djúpsævi menn eru í þessum málum öllum vil ég vekja máls á því að hinir góðu höfundar Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson vekja í sínu lögfræðilega áliti máls á tilteknum dómi gagnvart Noregi, hinu svokallaða Hjemfalls-máli. Þetta er dómur EFTA-dómstólsins og það er skemmst frá því að segja að ESA höfðaði þetta mál gegn Noregi. Með leyfi forseta segir í álitsgerðinni:

„Það varðaði ákvæði norskra laga sem fjalla um leyfi til kaupa á vatnsréttindum. Ágreiningurinn í málinu snerist m.a. um að leyfi til kaupa á vatnsréttindum til raforkuframleiðslu væru ótímabundin ef þau voru veitt fyrirtækjum sem töldust opinber samkvæmt lögunum, en tímabundin ef um er að ræða önnur fyrirtæki, þar með talin öll erlend fyrirtæki. Málið varðaði enn fremur ákvæði sömu laga sem mæla fyrir um að leyfi til annarra fyrirtækja en þeirra sem teljast opinber væru bundin því skilyrði að vatnsréttindi og aðrar eignir tengdar raforkuframleiðslu, þ.e. mannvirki og búnaður til virkjunar, félli til ríkisins að leyfistíma loknum án þess að greiddar væru bætur fyrir þau verðmæti sem um var að ræða.“

Til skýringar geta höfundarnir tveir þess að, með leyfi forseta:

„Vatnsréttindi í Noregi hafa frá upphafi getað verið undirorpin einkaeignarrétti en áhugi erlendra fjárfesta á kaupum á vatnsorku hafði farið vaxandi. Voru reglurnar settar til að bregðast við þeirri þróun.“

Um þetta er fjallað í alllöngu máli í álitsgerðinni en tíminn leyfir ekki annað en að vísa hérna til niðurstöðunnar. Álitsgerðin er aðgengileg á vef Alþingis. Með leyfi forseta ætla ég að vísa til álitsgerðarinnar á bls. 12:

„Því var hafnað að ákveðin skipan eignarréttar fælist í fyrirkomulagi eins og því norska, sem eingöngu stuðlaði að eða viðhéldi því að umrædd eignarréttindi væru að meginstefnu til í opinberri eigu, en veitti viðkomandi yfirvöldum á sama tíma frjálst mat um það hvort einkaaðilar öðlast slík eignarréttindi. Var það mat dómstólsins að norska fyrirkomulagið stefndi fremur að opinberri stýringu á vatnsaflsauðlindum en opinberu eignarhaldi þeirra.“

Af þessu má sjá að spurningarnar sem geta vaknað eru margar í samhengi við orkumálin eins og við höfum verið að ræða hérna undanfarna daga og reyndar nætur.

Með leyfi forseta ætla ég að leiðrétta ummæli sem ég hafði í síðustu viku þegar ég rifjaði upp ríkisstjórnir á áttunda áratugnum og nefndi að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hefði verið mynduð 28. september 1974. Það voru að sjálfsögðu mismæli, herra forseti. Hún var og er reyndar í fersku minni mynduð 28. ágúst þetta ár. Ég vona að þessi leiðrétting berist inn í þingtíðindin með réttum formlegum hætti eftir að hafa verið leiðrétt úr ræðustól Alþingis.