149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef, þótt úr fjarlægð sé, fylgst með liðlega 90 klukkustunda umræðu Miðflokksins um þetta mikilvæga mál, innleiðingu þriðja orkupakkans. Þykir mér æðimargt í málflutningi hv. þingmanna Miðflokksins óljóst, þær áhyggjur sem reifaðar eru og að á öllum þeim tíma sem þingmenn hafa tekið í umræðu um málið hafi þeim ekki tekist að svara þeim spurningum sjálfir sem þeir hafa ítrekað spurt hér. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um málið vekur það nokkra furðu.

Mér þætti áhugavert, þótt það tengist ekki beint ræðu hv. þingmanns sem flutt var hér á undan, ef hv. þingmaður gæti sagt mér í stuttu máli hverjar megináhyggjur þingmanna Miðflokksins eru og hverju sæti þá að þeir einir, níu þingmenn í þessum sal, hafi svo þungar áhyggjur af málinu þegar 54 kollegar þeirra í þessum sama sal virðast telja málið í einu og öllu fullrætt og tilbúið til atkvæðagreiðslu hér svo að vilji Alþingis fái að koma í ljós. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti upplýst mig í stuttu máli, vissulega er ekki gefinn langur tími til þess hér, hverjar þessar megináhyggjur eru, sér í lagi í ljósi þess að allir þeir stjórnskipulegu sérfræðingar sem kvaddir voru til í umræðu um málið og í umsögnum um það á undirbúningsstigi tóku af allan vafa um að afgreiðsla þess með þeim hætti sem Alþingi er að takast hér á við, stæðist í einu og öllu stjórnarskrá Íslands.